Dómarinn undir áhrifum frá Liverpool-leiknum

Carlo Ancelotti var afar ósáttur með rauða spjaldið sem Lucas …
Carlo Ancelotti var afar ósáttur með rauða spjaldið sem Lucas Digne fékk. AFP

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, var ekki sáttur eftir 2:0-tap sinna manna í ensku úrvalsdeildinni gegn Southampton á St. Mary's-vellinum í Southampton í gær.

James Ward-Prowse og Che Adams skoruðu fyrir Southampton í fyrri hálfleik og á 72. mínútu fékk Lucas Digne að líta beint rautt spjald fyrir klaufalegt brot á Kyle Walker-Peters og Everton-menn því einum manni færri það sem eftir lifði leiks.

Ancelotti var allt annað en sáttur með rauða spjaldið sem Digne fékk og segir að dómari leiksins, Kevin Friend, hafi verið undir áhrifum frá leiknum gegn Liverpool um síðustu helgi.

„Við spiluðum illa og Southampton var betri aðilinn allan tímann,“ sagði Ancelotti.

„Rauða spjaldið á Digne var algjört djók því þetta var alls ekki viljandi hjá honum. Það var engin illska í þessu.

Þetta var í mesta lagi gult spjald. Kannski var dómarinn undir áhrifum frá Liverpool-leiknum um síðustu helgi og umræðunni um Jordan Pickford og Richarlison í vikunni.

Það er alls ekki sanngjarnt ef það var tilfellið og við munum áfrýja þessu spjaldi,“ bætti Ancelotti við.

mbl.is