Endurkoma til United í kortunum?

Cristiano Ronaldo lék með Manchester United í sex ár áður …
Cristiano Ronaldo lék með Manchester United í sex ár áður en hann hélt til Spánar. AFP

Cristiano Ronaldo, einn besti knattspyrnumaður sögunnar og leikmaður Juventus í ítölsku A-deildinni, hefur verið orðaður við brottför frá félaginu að undanförnu.

Í gær bárust fréttir af því að Juventus vildi losna vil leikmanninn til þess að lækka launakostnað hjá félaginu en margar stórstjörnur eru samningsbundnar Ítalíumeisturunum og launakostnaðurinn því í hærri kantinum.

Ronaldo var strax orðaður við Frakklandsmeistara PSG sem hafa lengi verið á eftir leikmanninum en hann er orðinn 35 ára gamall.

Ronaldo þénar í kringum 28 milljónir punda á ári sem samsvarar rúmlega fimm milljörðum íslenskra króna.

Stuðningsmenn United vonast til þess að sjá Ronaldo aftur á Old Trafford en Mirror greinir frá því að leikmaðurinn sé opinn fyrir því að ganga til liðs við enska félagið á nýjan leik.

„Stuðningsmenn félagasins eru stórkostlegir og ég væri til í að snúa aftur þangað einn daginn,“ sagði Ronaldo í viðtali árið 2014.

Ronaldo lék með United frá 2003 til ársins 2009 og skoraði 118 mörk í 292 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert