Fernandes svipar til Ronaldo

Ole Gunnar Solskjær ræðir við Bruno Fernanders.
Ole Gunnar Solskjær ræðir við Bruno Fernanders. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla, segir Bruno Fernandes hafa svipuð áhrif á liðið og Cristiano Ronaldo gerði þegar hann lék með því.

Fernandes, sem leikur sem sóknartengiliður, hefur farið á kostum frá því hann gekk til liðs við Manchester United í janúar á þessu ári. Hefur hann skorað alls 21 mark í 35 leikjum og lagt upp önnur 13.

„Bruno er með þessa nærveru eins og Ronaldo og hefur mikil áhrif á liðsfélaga sína. Það er nóg að skoða úrslitin sem við höfum náð eftir að hann kom til okkar,“ sagði Solskjær í samtali við Sky Sports.

Solskjær er ekki spar á hrósið í garð Fernandes. „Hann býr yfir gríðarlegri orku, hann er með leiðtogahæfileika og spilar fyrir liðið. Það síðastnefnda er lykilatriði fyrir okkur í framhaldinu. Sumir leikmenn munu þurfa að sleppa því að taka þátt í vissum leikjum til þess að hvíla sig.

„Ég hlakkaði ekki til að segja Bruno frá því þegar hann var hvíldur gegn RB Leipzig en það var ekkert mál. Það sama var uppi á teningnum með Marcus [Rashford] reyndar. Þeir vita að þetta tímabil verður krefjandi og svona byggjum við upp liðið og umhverfi þess, með því að gera okkur grein fyrir því að þetta snýst alltaf um liðið en ekki einstaklinga,“ bætti hann við.

„Ég tel að Bruno hafi sannað það aftur og aftur að hann setur liðið í fyrsta sæti,“ sagði Solskjær að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert