Þriðja heimatapið í röð

Adama Traoré í baráttunni við Kieran Tierney.
Adama Traoré í baráttunni við Kieran Tierney. AFP

Arsenal tapaði þriðja heimaleik sínum í röð í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla þegar liðið laut í lægra haldi, 1:2, gegn Wolves í kvöld.

Úlfarnir komust yfir á 27. mínútu með marki Pedro Neto. Þá átti Adama Traoré frábæran sprett upp hægri kantinn og gaf fyrir á Leander Dendoncker, sem átti bylmingsskalla í þverslána. Neto náði frákastinu og kom boltanum í netið.

Aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Gabriel með góðu skallamarki. Þá tók Arsenal stutta hornspyrnu sem endaði með því að Willian fékk boltann aftur á hægri kantinum, gaf fyrir og Gabriel náði hörkuskalla sem söng í netinu.

Á 42. mínútu kom Daniel Podence Úlfunum yfir að nýju. Þá átti Neto gott skot sem fór af varnarmanni og þaðan í lappirnar á Leno. Podence náði frákastinu, lék á varnarmann og skoraði laglegt mark.

Arsenal reyndi sitt besta til að jafna metin í síðari hálfleik en allt kom fyrir ekki og frábær útisigur Úlfanna staðreynd.

Wolves fara með sigrinum upp í 6. sæti deildarinnar með 17 stig eftir 10 leiki. Arsenal er enn þá í 14. sæti með 13 stig.

Rúnar Alex Rúnarsson sat allan tímann á varamannabekk Arsenal í kvöld.

Pedro Neto fagnar marki sínu í kvöld.
Pedro Neto fagnar marki sínu í kvöld. AFP
David Luiz og Raúl Jiménez liggja sárþjáðir eftir samstuð.
David Luiz og Raúl Jiménez liggja sárþjáðir eftir samstuð. AFP
Arsenal 1:2 Wolves opna loka
94. mín. Leik lokið Þá er leiknum lokið með frábærum útisigri Úlfanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert