Burnley og Everton skildu jöfn

Yerry Mina hjá Everton og Chris Wood hjá Burnley í …
Yerry Mina hjá Everton og Chris Wood hjá Burnley í baráttunni í leiknum í dag. AFP

Burnley og Everton gerðu 1:1-jafntefli í fyrsta leik 11. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag.

Á 3. mínútu leiksins missti Allan í liði Everton boltann á eigin vallarhelmingi. Ashley Westwood náði boltanum og kom honum á Robbie Brady sem var ekkert að tvínóna við hlutina og hamraði hann af 25 metra færi í netið, 1:0.

Í blálok fyrri hálfleiks, á þriðju mínútu uppbótartíma, jafnaði Everton svo metin. Þá fór liðið í snarpa sókn sem endaði með því að Richarlison var kominn upp að endamörkum og gaf fyrir á Dominic Calvert-Lewin, sem stýrði boltanum örugglega í netið af stuttu færi, 1:1.

Gylfi Þór Sigurðsson kom inn á sem varamaður á 81. mínútu. Hann fékk gullið tækifæri til þess að tryggja Everton sigurinn á fyrstu mínútu uppbótartíma en skotið hans var of nálægt Nick Pope í marki Burnley, sem varði vel með fætinum.

Jóhann Berg Guðmundsson var ekki í leikmannahóp Burnley.

mbl.is