Gylfi: Hann var æstur og talar ekki góða ensku

Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður enska knattspyrnuliðsins Everton ræddi við Bjarna Þór Viðarsson hjá Símanum Sport og þar bar á góma atvikið í leiknum við Chelsea á dögunum þegar Richarlison ætlaði að taka boltann af Gylfa og taka vítaspyrnuna sem Everton fékk.

Brasilíumaðurinn komst ekki upp með það, Gylfi stóð fastur á sínu, tók vítaspyrnuna og skoraði af öryggi en Everton vann þarna góðan sigur, 2:0.

„Það fór eiginlega ekki mikið á milli okkar. Hann var æstur og talar ekki góða ensku svo hann kom ekki hlutunum vel út úr sér. Framherjar eru bara svona, þeir vilja taka vítin og þeir vilja skora. Ég held að hann hafi bara viljað skora til að fá sjálfstraustið. Ég sagði honum bara að ég væri að fara að taka vítið, enda var búið að leggja það upp fyrir leikinn,“ sagði Gylfi í viðtalinu við Bjarna en hluta af því má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert