Bikargengið bjargaði litlu nágrönnum Liverpool

Leikmenn Marine ganga þreyttir en stoltir af velli eftir að …
Leikmenn Marine ganga þreyttir en stoltir af velli eftir að hafa staðið sig með sóma gegn Tottenham sem er sjö deildum og 160 sætum ofar í deildakeppninni. AFP

Velgengni enska liðsins Marine í ensku bikarkeppninni í vetur hefur bjargað lífi félagsins, segir knattspyrnustjórnn Neil Young, en Marine féll loks út úr keppninni í dag þegar liðið tapaði 0:5 fyrir úrvalsdeildarliði Tottenham.

Nýtt met var sett í leiknum  því aldrei áður í 150 ára sögu keppninnar hefur verið jafnlangt á milli tveggja félaga sem hafa mæst í henni. Tottenham er í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar, 160 sætum ofar en Marine sem er í áttundu efstu deild.

Öll keppni í deildum neðar en sjöttu deild hefur verið slegin af á Englandi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og Marine lék í dag sinn fyrsta leik síðan 26. desember. Liðið hefur aðeins spilað sjö deildaleiki á tímabilinu, unnið fimm þeirra, og Young sagði að þetta gæti verið sá síðasti sem það spilar næstu mánuðina.

Engir áhorfendur voru leyfðir á Marine Travel Arena leikvanginum sem rúmar 3.185 manns, einmitt núna þegar félagið fékk í hendurnar sinn stærsta og verðmætasta leik í sögunni. Marine er frá bænum Crosby á Merseyside, skammt norðan við Liverpool.

Neil Young, knattspyrnustjóri Marine og starfsmaður járnbrautanna á Merseyside, var …
Neil Young, knattspyrnustjóri Marine og starfsmaður járnbrautanna á Merseyside, var stoltur af sínu liði eftir leikinn við Tottenham. AFP

Seldu rúmlega 30 þúsund miða á leikinn

Þar sem horfur voru á að Marine myndi missa af 100 þúsund punda hagnaði vegna leiksins, vegna skorts á áhorfendum og styrktaraðilum, ákvað félagið að selja „sýndarmiða“ á leikinn þar sem miðinn sem keyptur væri til styrktar félaginu myndi kosta 10 pund. Þá yrði dregið úr miðunum og sá heppni fengi að stjórna liði Marine í einum leik.

Hvorki fleiri né færri en 30.697 miðar seldust á leikinn og meðal þeirra sem keyptu var José Mourinho knattspyrnustjóri Tottenham. Ekki fer enn þá sögum af því hvort hann hafi verið sá heppni sem fær að stjórna liðinu.

Marine lék alls átta leiki í bikarnum, eftir að hafa komist í gegnum fimm umferðir í forkeppninni og tvær umferðir í sjálfri aðalkeppninni áður en kom að leiknum við Tottenham. Liðið vann því sjö bikarleiki áður en kom að viðureigninni gegn Tottenham í dag og sló út D-deildarliðið Colchester í 2. umferð aðalkeppninnar skömmu fyrir jól.

Fyrir utan áðurnefnda miðasölu hefur árangurinn í bikarkeppninni í vetur fært Marine 155 þúsund pund í hagnað, 80 þúsund í verðlaunafé frá enska knattspyrnusambandinu fyrir að komst í 3. umferð aðalkeppninnar og 75 þúsund pund þar sem leikurinn við Tottenham var sýndur beint á BBC One.

Rossett Park, heimavöllur Marine í bænum Crosby, er ekki alveg …
Rossett Park, heimavöllur Marine í bænum Crosby, er ekki alveg jafn íburðarmikill og leikvangar stóru félaganna. AFP

Stjórinn þurfti að fá frí úr vinnunni

„Við sáum ekki í okkar villtustu draumum að við ættum eftir að mæta Tottenham á heimavelli. Bikargengið okkar hefur bjargað félaginu fjárhagslega vegna okkar stöðu í deildakeppninni. En þetta gæti verið síðasti leikur tímabilsins og við vitum ekki hvað tekur við. Ég vildi bara gefa öllum færi á að spila og vildi bara geta faðmað þá eftir leik og sagt þeim hve vel þeir spiluðu," sagði Young, sem sjálfur þurfti að fá frí úr sinni hefðbundnu vinnu hjá járnbrautafélaginu Merseyrail til að stýra liðinu í leiknum.

Í liði Marine eru nokkrir starfsmenn bresku heilbrigðisþjónustunnar, nokkrir eru kennarar og einn starfar við sorphirðu. 

Tottenham færði öllum leikmönnum Marine hreinar treyjur Tottenham eftir leikinn því vegna sóttvarnareglna máttu leikmenn liðanna ekki skiptast á treyjum í leikslok.

mbl.is