Tottenham ekki í vandræðum með utandeildarliðið

Tottenham vann þægilegan sigur á Marine.
Tottenham vann þægilegan sigur á Marine. AFP

Tottenham er komið áfram í 32-liða úrslit ensku bikarkeppninnar í fótbolta eftir þægilegan 5:0-sigur á Marine FC á útivelli í kvöld. 

Marine er í áttundu efstu deild Englands og því ljóst að verkefnið yrði ærið gegn stórstjörnunum í Tottenham. 

Það tók Tottenham-liðið 24 mínútur að brjóta ísinn og það gerði Carlos Vinícius. Brasilíumaðurinn skoraði tvö mörk til viðbótar á 30. og 37. mínútu en þess á milli skoraði Lucas Moura einnig og var staðan í hálfleik 4:0. 

Hinn sextán ára gamli Alfie Devine skoraði fimmta mark Tottenham á 60. mínútu en fleiri urðu mörkin ekki og ævintýri Marine á enda. 

mbl.is