Veltur allt á Pogba

Paul Pogba fékk besta færi Manchester United í stórleiknum gegn …
Paul Pogba fékk besta færi Manchester United í stórleiknum gegn Liverpool í gær. AFP

Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði Manchester United og sparkspekingur hjá Sky Sports, telur að titilvonir United velti á leikformi Paul Pogba næstu mánuðina.

United er með 37 stig í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur tveggja stiga forskot á Manchester City sem á leik til góða á United.

Pogba hefur komið sterkur inn í lið United undanfarnar vikur og skoraði meðal annars sigurmark United gegn Burnley á útivelli í síðustu viku.

„United er vissulega á toppnum en ég tel að Liverpool og Manchester City séu bæði sigurstranglegri,“ sagði Neville eftir leik Liverpool og United í ensku úrvalsdeildinni í gær.

„City og Liverpool eru bestu lið deildarinnar og möguleikar United, á því að verða Englandsmeistari, velta á Paul Pogba og því hvernig hann mun standa sig.

Hann er fullur sjálfstrausts sem er jákvætt en hann þarf að eiga sína bestu leiki í búningi United ef liðið ætlar sér Englandsmeistatatitilinn, svo einfalt er það,“ bætti Neville við.

mbl.is