Góðar fréttir úr herbúðum Liverpool

Joel Matip og Jordan Henderson eru klárir í slaginn.
Joel Matip og Jordan Henderson eru klárir í slaginn. AFP

Jordan Henderson, fyrirliði Englandsmeistara Liverpool í knattspyrnu, er heill heilsu og klár í slaginn þegar liðið mætir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í London á morgun.

Þetta staðfesti Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, á blaðamannafundi í morgun en Henderson missti af síðasta leik liðsins gegn Manchester United í ensku bikarkeppninni á sunnudaginn síðast vegna meiðsla.

Þá staðfesti Klopp einnig að Joel Matip væri klár í slaginn en Matip missti einnig af bikarleiknum gegn United um síðustu helgi.

Gengi Liverpool í undanförnum leikjum hefur verið afleitt en liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum, tapað þremur og ert eitt jafntefli.

Liverpool vann síðast deildarleik 19. desember á síðasta ári og skoraði síðast deildarmark 27. desember síðastliðinn.

Liverpool er með 34 stig í fimmta sæti deildarinnar, 7 stigum minna en topplið Manchester City, en Tottenham er í sjötta sætinu með 33 stig.

mbl.is