Þarf að draga þessa fávísu fábjána fram í sviðsljósið

Anthony Martial var skotspónn á samfélagsmiðlum eftir ósigurinn gegn Sheffield …
Anthony Martial var skotspónn á samfélagsmiðlum eftir ósigurinn gegn Sheffield United í gærkvöld. AFP

Manchester United hefur sent frá sér yfirlýsingu og fordæmt harðlega kynþáttaníð sem tveir leikmanna liðsins urðu fyrir eftir ósigurinn óvænta gegn Sheffield  United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær.

Axel Tuanzebe og Anthony Martial voru í liði United og þeir urðu harkalega fyrir barðinu á ósáttum stuðningsmönnum félagsins á samfélagsmiðlum.

„Ég er yfir mig hneykslaður á því sem ég hef lesið í morgun," skrifaði Scott McTominay miðjumaður United á samfélagsmiðla.

„United er á móti kynþáttaníði. Við munum ekki umbera slíkt," skrifaði fyrirliðinn Harry Maguire.

Rio Ferdinand, fyrrverandi varnarmaður United, var harðorðari: „Það þarf að draga þessa fávísu fábjána fram í sviðsljósið svo allir sjái hverjir þeir eru," skrifaði hann.

Í yfirlýsingu United segir:

„Allir hjá Manchester United eru miður sín vegna þess kynþáttaníðs sem leikmenn hafa orðið fyrir á samfélagsmiðlum eftir leik gærkvöldsins. Við fordæmum þessi skrif af öllum mætti og það er upplífgandi að sjá að aðrir  stuðningsmenn fordæma þau líka á samfélagsmiðlunum. Það er erfitt að finna út hverjir þessir nafnlausu og óforskömmuðu fábjánar eru. Við hvetjum forráðamenn samfélagsmiðla og viðeigandi yfirvöld til að herða reglur til að koma í veg fyrir svona framkomu."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert