Vill hefnd eftir fyrri borgarslaginn

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, vill sigur gegn grönnunum í Everton …
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, vill sigur gegn grönnunum í Everton í kvöld. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri enska knattspyrnuliðsins Liverpool, segist vilja hefna fyrir fyrri borgarslaginn gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni. Hann ítrekar þó að hann vilji að lið sitt hefni fyrir 2:2-jafnteflið gegn grönnum sínum í október síðastliðnum á réttan hátt; með sigri.

Í jafnteflinu á Goodison Park í ensku úrvalsdeildinni í október braut Jordan Pickford, markvörður Everton, mjög illa á Virgil van Dijk, varnarmanni Liverpool, sem leiddi til þess að van Dijk sleit krossbönd og er frá út tímabilið. Pickford hlaut enga refsingu fyrir brotið og fannst Klopp hann eiga skilið beint rautt spjald.

„Það var gott að við spiluðum ekki strax aftur við Everton eftir að við fengum endanlega niðurstöðu í alvarleika meiðsla Virgils van Dijks tveimur til þremur vikum eftir leikinn. Lof mér að orða það þannig.

Við erum öll manneskjur og auðvitað var þetta ekki fallegt en þetta er löngu búið. Við tökum ekkert með okkur úr þeim leik í þennan. Við hugsum ekki um þetta lengur,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í gær.

Hann sagði þó að sú staðreynd að um borgarslag væri að ræða væri nægileg hvatning fyrir leikmenn hans til þess að vilja standa sig sem allra best í leiknum í kvöld.

Thiago, miðvallarleikmaður, meiddist líka illa á hné í fyrri leiknum og var frá í þrjá mánuði eftir ljótt brot Richarlisons á honum. Richarlison fékk rautt spjald fyrir brotið.

Aðspurður hvort jafnteflið gegn Everton í október hafi verið vendipunktur á tímabilinu hjá Liverpool sagði Klopp: „Ég veit ekki hvað ég mun hugsa að loknu tímabilinu ef satt skal segja. Ég vona að ég hugsi um eitthvað skemmtilegra en þennan leik. En þetta var vissulega mikilvægur dagur.“

Liverpool varð fyrir enn einu áfallinu í fyrri leiknum þegar VAR dæmdi af sigurmark Jordans Hendersons á elleftu stundu vegna rangstöðu Sadios Manés, þótt ómögulegt væri að sjá hvaða líkamshluti Manés hafi átt að vera rangstæður.

Klopp sagði að lokum að sínir menn þyrftu að hafa góða stjórn á tilfinningum sínum með það fyrir augum að ná fram hefndum gegn grönnum sínum á réttan hátt.

„Við spilum á okkar hátt. Við spilum á tilfinningaríkan hátt, en það er alltaf raunin. Þannig spilum við. Ég hef enga stjórn á því hvernig hitt liðið spilar. Ég hef ekkert að segja um það.“

mbl.is