„Þetta er mögnuð kynslóð“

Bukayo Saka og Emile Smith Rowe hafa náð vel saman …
Bukayo Saka og Emile Smith Rowe hafa náð vel saman hjá Arsenal að undanförnu enda búnir að leika knattspyrnu saman frá unga aldri. AFP

Hollenski þjálfarinn Andries Jonker fékk á sínum tíma það hlutverk að efla unglingaakemíuna hjá Arsenal og skila fleiri leikmönnum upp í aðallið félagsins. Það hefur svo sannarlega tekist. Í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins segir hann frá þessari vegferð og kynnum sínum af Alex Iwobi, Bukayo Saka, Joe Willock og fleirum. 

Þegar Andries Jonker var ráðinn yfirmaður unglingaakademíunnar hjá Arsenal árið 2014 voru skilaboðin skýr: „Við viljum að helmingur meistaraflokksliðsins okkar samanstandi af uppöldum leikmönnum!“ Menn voru ekki í vafa um að hann væri rétti maðurinn í verkið en Jonker hafði áður starfað fyrir hollenska knattspyrnusambandið, nokkur félög í heimalandinu, Wolfsburg og Bayern München í Þýskalandi og Barcelona á Spáni, þar sem hann var aðstoðarknattspyrnustjóri frá 2002-03. Sumsé maður með skýra sýn og reynslu.

Andries Jonker.
Andries Jonker. AFP


Jonker einhenti sér í verkefnið; að styrkja akademíuna í Hale End, efla njósnanetið og bæta þjálfunina með það að markmiði að fjölga leikmönnum sem ættu erindi í aðallið Arsenal. „Ivan Gazidis, þáverandi framkvæmdastjóri félagsins, útskýrði fyrir mér að við gætum ekki keppt fjárhagslega við félög á borð við Chelsea og Manchester City og þess vegna yrðum við að laga okkur að þessu líkani. Ala sjálfir upp fleiri leikmenn í hæsta gæðaflokki.“

Jonker rifjar upp að guðfaðir alsparksins (h. totaalvoetbal), Rinus heitinn Michels, fyrrverandi þjálfari Ajax, Barcelona og hollenska landsliðsins, hafi sagt sér að í hópi hundrað ungra leikmanna væru að jafnaði tveir frábærir; fimmtán góðir og aðrir fimmtán sem gætu orðið atvinnumenn í íþróttinni ef allt félli með þeim. Auðvelt var að heimfæra þetta á akademíuna hjá Arsenal þegar Jonkers kom til starfa.

Iwobi kom á óvart

Leikmennirnir sem honum þótti bera af voru Reiss Nelson og Marcus McGuane, báðir fæddir 1999. Sá fyrrnefndi hefur verið viðloðandi aðallið Arsenal síðustu árin en ekki fest sig í sessi. McGuane gekk hins vegar til liðs við Barcelona árið 2018 (fyrsti Englendingurinn á eftir Gary Lineker) en var seldur til Nottingham Forest í fyrra. Hann er nú í láni hjá Oxford United í C-deildinni.

Alex Iwobi kom mörgum á óvart þegar hann braust inn …
Alex Iwobi kom mörgum á óvart þegar hann braust inn í aðallið Arsenal. Hann er nú hjá Everton. AFP


Ekki er alltaf auðvelt að sjá hverjir komi til með að ná í gegn. Jonker bjóst til dæmis alls ekki við því að Alex Iwobi yrði fyrsti unglingurinn til að brjótast inn í aðallið Arsenal á hans vakt. „Þegar ég kom var hann ekki 100% heill. Hann lék með hnéhlíf og var aðeins of þungur. Ég spurðist fyrir um hann og fékk þau svör að hann væri bara að spila vegna meiðsla annarra og væri líklega á förum frá félaginu. En Arsène Wenger vantaði aukamenn á æfingu, Iwobi stóð sig vel og var boðið að koma aftur. Hann náði líka fullri heilsu og losaði sig við hnéhlífina. Mikið var um meiðsli hjá aðalliðinu á þessum tíma og að því kom að Iwobi fékk tækifærið. Og nýtti það og leit aldrei um öxl. Frábært hjá honum,“ segir Jonker sem lét hengja treyju með nafni Iwobis upp á vegg í Hale End – öðrum til innblásturs. Iwobi, sem er nígerískur landsliðsmaður, var seldur til Everton haustið 2019 fyrir 34 milljónir sterlingspunda.

Ainsley Maitland-Niles kom fast á hæla Iwobis en báðir höfðu þeir komið kornungir til Arsenal, Iwobi átta ára og Maitland-Niles sex ára. Maitland-Niles hefur leikið yfir 100 leiki fyrir Arsenal og fimm landsleiki fyrir England. Hann er nú í láni hjá WBA í úrsvalsdeildinni.

Þetta er þeirra heimur

Síðan opnuðust allar flóðgáttir; Joe Willock, Eddie Nketiah, Emile Smith Rowe, Bukayo Saka og Folarin Balogun hafa allir sett mark sitt á aðallið Arsenal á síðustu tveimur til þremur árum. „Þeir hafa allir alist upp í Hale End og unna félaginu. Þetta er þeirra heimur og þeir vilja hvergi leika knattspyrnu nema hjá Arsenal. Í því eru fólgnir miklir möguleikar fyrir félagið enda hafa allir þessir piltar getuna til að hjálpa Arsenal að ná árangri í nálægri framtíð. Auðvitað veit enginn hvar þeir verða eftir fimm ár en það er eigi að síður undravert að svona margir leikmenn hafi skilað sér á svona stuttum tíma upp úr unglingaliðinu. Þetta er mögnuð kynslóð.“

Joe Willock var baldinn unglingur og Jonker þurfti að koma …
Joe Willock var baldinn unglingur og Jonker þurfti að koma á hann böndum. AFP


Að sögn Jonkers hefur hver þessara pilta sinn karakter og gefa þarf sumum meiri tíma en öðrum. Hann nefnir Joe Willock sem dæmi. „Hann var í U16-liðinu þegar ég kom og ég sá strax að hann hafði hæfileika. Á móti komu agavandamál. Ekkert stórvægilegt, eins og að mæta of seint á fund og ef eitthvað kom upp á virtist Joe alltaf eiga aðild að málum. Þess vegna færði ég hann upp í U18-liðið; hélt hann myndi breytast innan um eldri stráka en það gerðist ekki. Að því kom að aðrir í starfsliðinu sögðu að við ættum klárlega að láta hann fara. Ég þráaðist hins vegar við og fór að taka hann á séræfingar, stundum með þrekþjálfara. Við æfðum á undarlegustu tímum sólarhringsins og Joe virtist hafa gaman af þessu; tjáði mér að séræfingarnar hefðu gert sig betri. Eftir þetta komst hann á beinu brautina og hefur bætt sig mikið eftir að ég fór. Í ljósi þess sem ég hef lýst þá gerir það mig mjög stoltan.“

Willock hefur leikið 78 leiki fyrir Arsenal í öllum keppnum en var lánaður til Newcastle United í úrvalsdeildinni um daginn.

Rauf netmöskvana

Bukayo Saka vakti snemma athygli Jonkers. „Hann var stór og sterkur vinstri-vængmaður sem hljóp án fyrirhafnar fram hjá öllum og rauf netmöskvana með skotum sínum. Við spurðum okkur hvort hann hefði bara þessa yfirburði vegna stærðar sinnar eða hvort hann væri í raun og veru góður leikmaður. Freddie Ljungberg færði hann í stöðu vinstri-bakvarðar og hann hefur staðið sig reglulega vel þar. Allir eru stoltir af honum.“

Saka, sem er enn bara nítján ára, hefur slegið rækilega í gegn hjá Arsenal síðustu tvö tímabilin; átti flestar stoðsendingar allra leikmanna aðalliðsins á liðinni leiktíð þegar hann lék mest sem vinstri-bakvörður. Það er til marks um fjölhæfnina að hann hefur aðallega leikið á hægri vængnum á þessari leiktíð. Þá lék hann sína fyrstu landsleiki fyrir England síðasta haust.

Jonker er heldur ekki hissa á velgengni Emile Smith Rowe sem komið hefur eins og stormsveipur inn í lið Arsenal á þessu tímabili. „Hann hefur verið hjá félaginu frá unga aldri og veit upp á hár hvernig hann á að leika; í grundvallaraatriðum er enginn munur á hans hlutverki, hvort sem hann er að spila með unglingaliðunum eða aðalliðinu.“

Vinnusemi og rétt viðhorf

Eddie Nketiah er markahæsti leikmaðurinn í sögu U21-landsliðs Englands.
Eddie Nketiah er markahæsti leikmaðurinn í sögu U21-landsliðs Englands. AFP


Eddie Nketiah er ekki sama náttúrubarnið, að dómi Jonkers, en viðhorfið sé hans helsta vopn. „Það var ekki sjálfgefið að við héldum honum á sínum tíma en létum hann njóta vafans. Og hann hefur bætt sig jafnt og þétt enda ótrúlega vinnusamur. Ég hef alltaf hvatt Eddie til að hafa trú á sér og vinna vel. Ég er mjög stoltur af hans vegferð,“ segir Jonker en Nketiah er markahæsti leikmaðurinn í sögu U21-árs liðs Englands, hefur skorað 16 mörk í 14 landsleikjum. Gamla metið átti maður að nafni Alan Shearer.

Andries Jonker hætti hjá Arsenal árið 2017 til að taka við liði Wolfsburg í Búndeslígunni. Hann þjálfar nú SC Telstar í heimalandi sínu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »