Leikmönnum Villa bannað að taka þátt í draumaliðsfótbolta

Jack Grealish hefur verið einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í …
Jack Grealish hefur verið einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í vetur og er vinsæll í draumaliðsleikjum sem tengjast deildinni. AFP

Leikmönnum enska knattspyrnufélagsins Aston Villa hefur verið bannað að taka þátt í draumaliðsfótbolta (Fantasy Football) til loka þessa tímabils.

The Times greinir frá þessu í kvöld og ástæðan er sögð sú að fréttir af meiðslum sem Jack Grealish, fyrirliði og besti leikmaður Aston Villa, varð fyrir á æfingu fyrir leik liðsins gegn Leicester um helgina láku út á samfélagsmiðla á föstudagskvöldið.

Ekki þótti ljóst hvernig fréttir af meiðslunum bárust út fyrir leikmannahóp Aston Villa en Dean Smith knattspyrnustjóri og hans starfsfólk höfðu skiljanlega lítinn áhuga á að andstæðingarnir fréttu það fyrr en klukkutíma fyrir leik að Grealish væri ekki með í leiknum.

Samkvæmt The Times hefur sú kenning komið fram að „lekinn“ hafi átt sér þannig stað að árvökulir þátttakendur í draumaliðsleik úrvalsdeildarinnar hafi tekið eftir því að leikmenn Aston Villa sem tóku þátt í leiknum hefðu tekið Grealish út úr sínum liðum í leiknum. Þannig hefði orðrómurinn um meiðsli Grealish farið af stað.

mbl.is