Vantar varnarmann í stórleikinn í Búkarest

Thiago Silva röltir meiddur af velli í leiknum við Tottenham …
Thiago Silva röltir meiddur af velli í leiknum við Tottenham 4. febrúar. AFP

Thiago Silva, varnarmaðurinn reyndi, verður ekki með Chelsea annað kvöld þegar liðið mætir Atlético Madrid á útivelli í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.

Thiago meiddist í leik gegn Tottenham í byrjun mánaðarins og hefur misst af fjórum síðustu leikjum Lundúnaliðsins sem hefur þó aðeins fengið á sig tvö mörk á þeim tíma.

Að öðru leyti fer Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, með sinn sterkasta hóp til Búkarest. Christian Pulisic og Kai Havertz voru tæpir vegna meiðsla en eru sagðir leikfærir í dag.

Heimaleikur Atlético fer fram í Búkarest þar sem ensk lið mega ekki koma til Spánar vegna sóttvarnaráðstafana þar í landi. Þetta er fyrri viðureign liðanna.

mbl.is