Gylfi lagði upp sigurmarkið

Gylfi Þór Sigurðsson með boltann í leiknum í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson með boltann í leiknum í kvöld. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp sigurmark Everton í kvöld þegar liðið vann sigur á Southampton, 1:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Markið kom strax á 9. mínútu. Gylfi náði boltanum skammt utan vítateigs Southampton og renndi honum á milli miðvarðanna og inn í vítateiginn á Richarlison sem slapp einn gegn markverðinum, lék til hliðar og skoraði, 1:0.

Markvörðurinn Jordan Pickford var hetja Everton þegar hann varði glæsilega frá Jannik Westergaard úr dauðafæri á markteig á 90. mínútu leiksins.

Gylfi var fyrirliði Everton í kvöld og lék allan leikinn.

Everton er áfram í sjöunda sætinu eftir sigurinn en náði Liverpool að stigum. Grannliðin eru bæði með 43 stig en Liverpool, sem hefur leikið einum leik meira, er í sjötta sæti. Þá eru aðeins tvö stig í West Ham sem er í fjórða sætinu.

Southampton dregst hinsvegar sífellt nær hættusvæði deildarinnar. Liðið er með 30 stig í 14. sæti og er sjö stigum fyrir ofan Fulham sem er í fallsæti. Frá því Southampton vann Liverpool í byrjun janúar hefur liðið aðeins fengið eitt stig í átta leikjum í deildinni.

mbl.is