Everton er mitt lið

Carlo Ancelotti ræðir málin við Gylfa Þór Sigurðsson.
Carlo Ancelotti ræðir málin við Gylfa Þór Sigurðsson. AFP

Ítalski knattspyrnustjórinn Carlo Ancelotti kveðst vera gríðarlega stoltur af leikmönnum Everton og hvernig þeir hafa staðið sig að undanförnu í ensku úrvalsdeildinni.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hafa unnið síðustu þrjá leiki sína, án þess að fá á sig mark, og er Everton komið upp í fimmta sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir Manchester United sem er í öðru sæti, en Everton á leik til góða.

„Ég er fyrst og fremst ánægður með að vera stjórnandi þessa liðs og með þessa leikmenn. Þetta er liðið mitt. Everton er mitt lið. Ég finn að leikmennirnir standa með mér og bera virðingu fyrir mínum hugmyndum. Auðvitað myndum við vilja spila betur, það er ekki bara ég sem vildi það, heldur líka leikmennirnir," sagði Ancelotti á fréttamannafundi í dag.

„Ég tel að við þurfum að auka enn frekar tæknilega getu leikmanna í hópnum en eitt sem við getum ekki bætt frekar er liðsandinn, sem er virkilega góður. Ég er afar ánægður með að hafa slíka eiginleika í mínum hópi," sagði Ancelotti.

Fyrstur af sigurleikjunum þremur á síðustu dögum var grannaslagurinn gegn Liverpool þar sem Everton vann sinn fyrsta sigur á Anfield á þessari öld.

„Sigurinn gegn Liverpool var lykilatriði fyrir okkur því við mættum í þann leik eftir ósigur gegn Fulham á heimavelli. Sigurinn á Liverpool gaf okkur meira sjálfstraust og meiri trú. Sjálfstraustið er annars gott því ég tel að árangur okkar á útivelli hafi komið öllum á óvart. Lykillinn að því er að mínu mati sá að í útileikjum erum við einbeittari í okkar varnarleik. Við höfum náð góðum úrslitum á útivelli með virkilega góðri vörn. Og þegar við bætast þau gæði sem eru í skyndisóknunum okkar og í föstu leikatriðunum, þá getum við náð í góð úrslit," sagði Ítalinn.

Everton sækir Chelsea heim á mánudagskvöldið en eitt stig skilur liðin að í fjórða og fimmta sæti. Þetta er því einn af lykilleikjunum í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

„Vonandi náum við að halda okkar striki gegn Chelsea, það yrði stórkostlegt. Við verðum að spila virkilega vel til að eiga möguleika gegn þeim. Nú eigum við tólf leiki eftir í deildinni. Við verðum að einbeita okkur að næsta leik, gegn Chelsea, en verðum líka að vera einbeittir í hinum ellefu leikjunum,“ sagði Ancelotti.

mbl.is