Enn er von eftir lygilegan sigur á Chelsea

Mbaye Diagne skoraði fjórða mark West Brom á Stamford Bridge …
Mbaye Diagne skoraði fjórða mark West Brom á Stamford Bridge í dag. AFP

West Brom vann ótrúlegan 5:2-sigur á Chelsea er liðin mættust á Stamford Bridge í 30. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. þetta var fyrsta tap Thomas Tuchel í þjálfarastöðu Chelsea eftir að hann vann tíu af fyrstu 14 leikjum sínum.

Chelsea náði forystunni á 28. mínútu eftir að skot Marcos Alonso úr aukaspyrnu small í stönginni og Christian Pulisic skoraði úr frákastinu. Flestum hefði verið fyrirgefið að hugsa að Chelsea ætti nokkuð sannfærandi sigur í vændum, enda heimamenn sterkari fyrsta hálftíma leiksins og nú komnir yfir gegn liði í næstneðsta sæti deildarinnar. Staðan átti þó heldur betur eftir að breytast.

Aðeins mínútu eftir markið fékk Thiago Silva rautt spjald þegar hann braut á Okay Yoksulu utan teigs og fékk sitt annað gula spjald. Gestirnir áttu eftir að nýta liðsmuninn. Matheus Pereira jafnaði metin með því að vippa yfir Edouard Mendy í marki Chelsea eftir langa sendingu frá Sam Johnstone í markinu í uppbótartíma. Tveimur mínútum síðar var staðan 1:2: Pereira skoraði aftur, nú með hnitmiðuðu skoti í nærhornið og West Brom fór með forystu inn í hálfleikinn.

Callum Robinson kom svo West Brom í 3:1 á 63. mínútu með föstu viðstöðulausu skoti í markið eftir fyrirgjöf Darnell Furlong og enn versnaði staðan fyrir Chelsea því á 68. mínútu var staðan orðin 4:1. Mbaye Diagne skoraði eftir sendingu frá Pereira.

Leikmenn Chelsea voru ekki alveg uppgefnir og klóruðu í bakkann á 71. mínútu, Mason Mount skoraði eftir undirbúning Timo Werner. West Brom innsiglaði svo sigurinn lygilega í uppbótartíma, Pereira kom knettinum inn fyrir vörnina á Robinson sem skoraði sitt annað mark og fimmta mark gestanna. Pereira lauk leik með tvö mörk og tvær stoðsendingar.

Með sigrinum fer West Brom í 21 stig, er enn í 19. sæti en nú fimm stigum frá Fulham og sjö stigum frá Newcastle og öruggu sæti. Chelsea er áfram í 4. sæti með 51 stig en gæti misst West Ham upp fyrir sig, sem er með 49 stig í 5. sæti og á leik til góða.

Thiago Silva gengur af velli eftir að hafa fengið rautt …
Thiago Silva gengur af velli eftir að hafa fengið rautt spjald á Stamford Bridge í dag. AFP
Chelsea 2:5 WBA opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert