United kom til baka í síðari hálfleik og vann

Mason Greenwood fagnar marki sínu í kvöld.
Mason Greenwood fagnar marki sínu í kvöld. AFP

Manchester United vann góðan 2:1 endurkomusigur gegn Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni í kvöld eftir að hafa verið undir í hálfleik.

Heimamenn í Man Utd byrjuðu leikinn betur og átti Mason Greenwood til að mynda þrumuskot í stöngina strax á áttundu mínútu.

Eftir það tóku gestirnir í Brighton öll völd og uppskáru mark á 13. mínútu. Eftir flotta sókn endaði boltinn hjá Pascal Gross á hægri vængnum, hann átti frábæra fyrirgjöf beint á kollinn á Danny Welbeck sem skallaði að marki, Dean Henderson varði en Welbeck náði frákastinu og skallaði í netið. Staðan orðin 0:1 og Danny Welbeck að skora þriðja mark sitt á ferlinum gegn uppeldisfélaginu.

Brighton voru áfram ógnandi, sérstaklega úr föstum leikatriðum þar sem góðar fyrirgjafir Gross nutu sín. Lewis Dunk fékk gott færi á 19. mínútu þegar hann skallaði aukaspyrnu Gross að marki en Henderson varði vel aftur fyrir.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks fékk Jakub Moder svo dauðafæri í kjölfar hornspyrnu en skot hans í varnarmann og rétt framhjá.

Staðan því 0:1, Brighton í vil, í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn fór rólega af stað en eftir rúman klukkutíma leik jafnaði Man Utd metin. Leikmenn Brighton misstu þá boltann á hættulegum stað, Bruno Fernandes náði honum, geystist fram með boltann, lagði hann til hliðar á Marcus Rashford sem kláraði mjög vel í fjærhornið, 1:1.

Á 71. mínútu komst Brighton í dauðafæri þegar Neal  Maupay gaf fyrir á Welbeck, Maguire togaði hann niður og kom þar með í veg fyrir að hann skoraði af örstuttu færi. Þrátt fyrir það lét Mike Dean dómari sér fátt um finnast og dæmdi ekki vítaspyrnu, og var VAR honum sammála.

Á 83. mínútu tók Man Utd svo forystuna. Fernandes gaf þá fyrir á Paul Pogba, sem náði skoti eða sendingu á Mason Greenwood sem skallaði boltann í netið af stuttu færi, 2:1.

Þar við sat og góður endurkomusigur Man Utd staðreynd.

Man Utd er áfram í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, 14 stigum á eftir Manchester City og með leik til góða.

Brighton er áfram í 15. sæti deildarinnar, sjö stigum fyrir ofan fallsæti.

Danny Welbeck kemur Brighton yfir.
Danny Welbeck kemur Brighton yfir. AFP
Bruno Fernandes tekur við knettinum.
Bruno Fernandes tekur við knettinum. AFP
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Man. Utd 2:1 Brighton opna loka
95. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með góðum endurkomusigri Man Utd!
mbl.is