Tottenham ætlar að grípa til aðgerða

Son Heung-min fagnar eftir að hafa komið Tottenham yfir gegn …
Son Heung-min fagnar eftir að hafa komið Tottenham yfir gegn Manchester United í leiknum í gær. AFP

Enska knattspyrnufélagið Tottenham hefur lýst því yfir að það ætli að grípa til alvarlegra aðgerða í kjölfar þess að Son Heung-min, suðurkóreski sóknarmaðurinn hjá félaginu, varð fyrir kynþáttaníði á samfélagsmiðlum eftir leikinn gegn Manchester United í gær.

Son skoraði mark Tottenham í 1:3-ósigri á heimavelli en áður hafði hann komið að atviki þar sem mark var dæmt af United í kjölfar þess að Son fékk hönd Scotts McTominays í andlitið í aðdraganda marksins.

Athugasemdir á samfélagsmiðlum leiddu til þess að Tottenham sendi frá sér yfirlýsingu. „Nýr leikur og meira af hræðilegu kynþáttaníði sem okkar leikmaður verður fyrir. Við höfum enn á ný tilkynnt þetta til viðkomandi miðla og nú munum við rannsaka málið ítarlega ásamt úrvalsdeildinni til þess að finna út áhrifaríkustu leiðirnar til að bregðast við þessu,“ segir í yfirlýsingunni.

Eftir næsta leik á undan, 2:2-jafntefli gegn Newcastle, varð Davinson Sánchez, kólumbískur varnarmaður Tottenham, fyrir svipuðu níði á samfélagsmiðlum.

Swansea hefur þegar brugðist við níði í garð sinna leikmanna á þann hátt að hætta alfarið á samfélagsmiðlum í eina viku, félagið sjálft, leikmenn þess og starfsmenn. Birmingham City hefur gert slíkt hið sama, sem og skosku meistararnir Rangers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert