Fór úr axlarlið og gæti misst af síðustu leikjunum

Daníel Leó Grétarsson í leik með Blackpool gegn WBA í …
Daníel Leó Grétarsson í leik með Blackpool gegn WBA í bikarkeppninni í vetur. AFP

Daníel Leó Grétarsson, knattspyrnumaður frá Grindavík, gæti misst af þeim leikjum sem Blackpool á eftir í ensku C-deildinni eftir að hann fór meiddur af velli í leik liðsins gegn Sunderland á laugardaginn.

Fram kemur að Daníel hafi farið úr axlarlið í leiknum. Neil Critchley knattspyrnustjóri Blackpool sagði á heimasíðu félagsins að þar sem öxlin hefði hrokkið aftur í liðinn væri hann bjartsýnn á að Daníel gæti spilað aftur áður en tímabilinu lyki. Hann þyrfti hins vegar að fara í myndatöku og væri úr leik fyrir leik liðsins við Rochdale annað kvöld, til að byrja með.

Daníel kom til Blackpool í vetur frá Aalesund í Noregi. Hann missti af sextán leikjum í röð eftir að hafa meiðst um jólin en hafði spilað fimm af síðustu sjö leikjum Blackpool í deildinni og samtals tólf leiki á tímabilinu.

Blackpool vann Sunderland 1:0 í mikilvægum leik á laugardaginn og er komið í fimmta sæti C-deildarinnar en liðið er ósigrað í sextán leikjum í röð. Það á góða möguleika á að komast í umspil um sæti í B-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert