Sakar leikmann Liverpool um leti

Georginio Wijnaldum hefur verið sterklega orðaður við Barcelona í allt …
Georginio Wijnaldum hefur verið sterklega orðaður við Barcelona í allt sumar. AFP

Graeme Souness, sparkspekingur hjá Sky Sports, skaut föstum skotum að Georginio Wijnaldum, miðjumanni Liverpool, á dögunum.

Souness, sem var eitt sinn fyrirliði Liverpool, ásamt því að stýra liðinu, þekkir vel til í herbúðum félagsins og telur næsta víst að hollenski miðjumaðurinn sé á förum í sumar.

Wijnaldum, sem er þrítugur, verður samningslaus í sumar en hann hefur verið sterklega orðaður við Barcelona að undanförnu.

„Vissulega hafa meiðsli sett strik í reikninginn hjá Liverpool en það vantar þessa ákefð sem hefur einkennt liðið undanfarin tímabil,“ sagði Souness.

„Sumir leikmenn virðast vera farnir að vorkenna sjálfum sér yfir slöku gengi og það er eins og þeir séu búnir að sætta sig við að árið í ár verði eins og það hefur verið.

Það er klárt mál að Wijnaldum er á förum. Hann hefur verið langt frá sínu besta og virkað latur miðað við vinnuframlagið sem hann er vanur að sýna.

Það hefur vantað mikið upp á á miðsvæðinu hjá Liverpool á tímabilinu og það hefur haft meiri áhrif á liðið en sóknarleikurinn að mínu mati,“ bætti Souness við.

mbl.is