Jafntefliskóngarnir náðu jafntefli á Brúnni

Kurt Zouma og Leandro Trossard í leiknum í kvöld.
Kurt Zouma og Leandro Trossard í leiknum í kvöld. AFP

Chelsea og Brighton & Hove Albion gerðu markalaust jafntefli á Stamford Bridge í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Brighton hefur þar með gert 13 jafntefli í deildinni á tímabilinu, mest allra liða.

Fyrri hálfleikurinn var fremur tíðindalítill og stöðubarátta í algleymingi. Besta færið fékk Kai Havertz eftir 20 mínútna leik. Hann fékk þá boltann í vítateignum eftir mistök Ben White, skaut að marki en Robert Sánchez varði vel til hliðar.

Hjá Brighton komst Yves Bissouma næst því að skora á 42. mínútu, þegar gott skot hans rétt innan teigs fór af Jorginho og lenti ofan á markinu.

Markalaust var því í hálfleik.

Í síðari hálfleiknum stefndi í enn tíðindaminni hálfleik en seint í honum fóru hlutirnir loks að gerast. Þá settu gestirnir í Brighton heimamenn undir mikla pressu og uppskáru fjögur góð skotfæri með mjög skömmu millibili.

Fyrst fékk varamaðurinn Adam Lallana dauðafæri við teiginn á 77. mínútu eftir að annar varamaður, Neal Maupay, hafði unnið boltann af Kurt Zouma á hættulegum stað, en skot Lallana framhjá markinu.

Skömmu síðar tapaði Chelsea boltanum rétt fyrir framan eigin teig, Danny Welbeck náði glæsilegu skoti sem small í stönginni, Welbeck náði frákastinu og skaut að marki en Antonio Rüdiger náði að hreinsa frá.

Hreinsunin fór þó ekki langt því Brighton náði boltanum aftur, hann barst til Lallana sem var aftur kominn í frábært skotfæri, hann hitti að þessu sinni á markið en Kepa í marki Chelsea varði örugglega.

Nokkrum mínútum síðar, á 85. mínútu, gerði varamaðurinn Olivier Giroud sig líklegan til þess að tryggja Chelsea sigur en skot hans af stuttu færi eftir undirbúning annars varamanns, Callum Hudson-Odoi, framhjá markinu.

Á annarri mínútu uppbótartíma fékk White sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Það kom þó ekki að sök fyrir gestina og markalaust jafntefli niðurstaðan.

Brighton hefur sem áður segir gert 13 jafntefli á tímabilinu. Flest jafntefli á einu 38 leikja tímabili í ensku úrvalsdeildinni eru 17 talsins.

Chelsea fer upp í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og er nú jafnt að stigum og West Ham United í 5. sætinu.

Brighton er áfram í 16. sæti, sjö stigum frá fallsæti.

Chelsea 0:0 Brighton opna loka
94. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með markalausu jafntefli.
mbl.is