Hermann: „Þessi dómari á aldrei að fá að dæma aftur“

Hermann Hreiðarsson var ekki alls kostar sáttur við ákvörðun Chris Kavanagh, dómara í leik West Ham United og Chelsea, um að reka Fabián Balbuena, varnarmann Hamranna, út af í leik liðanna um helgina.

Balbuena fékk rautt spjald eftir að hafa hreinsað boltann burt og stigið í kjölfarið á Ben Chilwell. Kavanagh skoðaði atvikið í VAR og ákvað að gefa beint rautt.

„Þetta er algjörlega út í hött og þessi dómari á náttúrulega aldrei að fá að dæma aftur,“ sagði Hermann í Vellinum á Símanum Sport í gær og kallaði eftir lágmarks heilbrigðri skynsemi þar sem Balbuena virtist sannarlega ekki hafa neitt illt í hyggju.

Gylfi Einarsson tók í sama streng:

„Málið með þetta allt saman, þegar þú ert farinn að skoða hlutina í endursýningu, það ætti að banna það að skoða allt hægt. Það lítur allt miklu verr út í endursýningu.

Hann ætti að fá að njóta vafans, hann er að hreinsa boltann. Hvað á hann að gera við fótinn á sér? Hann getur ekki sett hann í vasann!“

Umræður Hermanns, Gylfa og Tómasar Þórs Þórðarsonar um þetta rauða spjald má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert