Ræði framtíð mína í sumar

Marcelo Bielsa, knattspyrnustjóri Leeds United.
Marcelo Bielsa, knattspyrnustjóri Leeds United. AFP

Marcelo Bielsa, knattspyrnustjóri Leeds United, segist ekki ætla að ræða framtíð sína fyrr en í sumar, þegar keppni lýkur í ensku úrvalsdeildinni.

Bielsa er á sínu þriðja tímabili með Leeds en hefur haft það fyrir sið á þjálfaraferli sínum að semja aðeins til eins árs í senn.

Andrea Radrizzani, formaður félagsins, lét hafa það eftir sér í vikunni að vilji sé hjá báðum aðilum um að halda áfram samstarfinu.

„Varðandi þetta mál vil ég heldur tjá mig um það þegar deildinni lýkur. Ég kann að meta orð eigandans en ég er sammála því sem hann sagði um að virðing Leeds ætti að vera ofar öllu.

Þar sem félagið stendur traustum fótum er það í stakk búið til þess að taka réttar ákvarðanir,“ sagði Bielsa á blaðamannafundi í dag.

mbl.is