Sakar fyrirliða Liverpool um sjálfselsku

Jordan Henderson lék síðast með Liverpool í febrúar gegn Everton.
Jordan Henderson lék síðast með Liverpool í febrúar gegn Everton. AFP

Gabriel Agbonlahor, fyrrverandi fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Aston Villa, gagnrýndi Jordan Henderson, fyrirliða Liverpool, harðlega í viðtali við enska miðilinn talkSport á dögunum.

Henderson er í enska landsliðshópnum sem er á leið á EM en miðjumaðurinn er að koma til baka eftir erfið nárameiðsli sem hafa haldið honum frá keppni síðan í febrúar.

England hefur leik á EM sunnudaginn 13. júní þegar liðið mætir Króatíu en það bendir allt til þess að Henderson geti ekki tekið þátt í leiknum.

„Mér finnst þetta sjálfelska í Henderson,“ sagði Agbonlahor sem lék þrjá landsleiki fyrir England á sínum tíma.

„Það er búið að velja hann í hópinn og svo lætur hann vita í vikunni og segist ekki vera nægilega heill heilsu til þess að spila vináttulandsleik gegn Austurríki.

Sjúkraþjálfarar liðsins segja að það sé í lagi með hann en hann treystir sér ekki til að spila. EM byrjar eftir nokkra daga og menn þurfa að vera klárir í slaginn.

Henderson ætti að vera hreinskilinn við þjálfarann og láta hann vita að hann sé ekki tilbúinn í mótið. Hann á að draga sig úr hópnum svo þjálfarinn geti fengið inn nýja leikmenn. 

Hann er frábær leikmaður en hann er ekki Lionel Messi. Það á að senda hann heim,“ bætti Agbonlahor við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert