Komu föður sem glímir við krabbamein á óvart (myndskeið)

Amanda, Thea og Lee ræða við Thiago.
Amanda, Thea og Lee ræða við Thiago. Skjáskot/LFC

Thiago Alcantara, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, kom Lee McNeil, dyggum stuðningsmanni félagsins, heldur betur á óvart í aðdraganda feðradagsins í Bretlandi og fékk þar mikla hjálp frá Theu, dóttur McNeil.

Lee glímir við krabbamein í endaþarmi sem hann greindist með skömmu fyrir jól á síðasta ári.

Hann hefur verið að gangast undir geislameðferð á þessu ári og brá hin unga Thea á það ráð að reyna að hressa föður sinn við með því að hafa samband við Nivea, sem stendur fyrir glaðningnum í samstarfi við Liverpool.

Thea og Amanda, unnusta Lee, hafa ekkert nema gott um hann að segja og þykir vænt um hversu mikinn tíma hann gefur sér til að sinna Theu þrátt fyrir þreytu og vanlíðan í tengslum við baráttuna við krabbameinið.

Thiago var fenginn til þess að hressa Lee við en líkt og spænski landsliðsmaðurinn segir í myndskeiðinu endar Lee á að hressa hann við.

Auk þess að fá að ræða við Thiago leysti Nivea Lee út með gjöfum í tilefni feðradagsins, sem er þann 20. júní í Bretlandi þetta árið.

Myndskeiðið hjartnæma má sjá hér:

mbl.is