Þetta hjálpar hvorki honum né okkur

Ralph Hasenhuttl, knattspyrnustjóri Southampton, vill ólmur halda Danny Ings í …
Ralph Hasenhuttl, knattspyrnustjóri Southampton, vill ólmur halda Danny Ings í herbúðum félagsins. AFP

Ralph Hasenhuttl, knattspyrnustjóri enska félagsins Southampton, kveðst miður sín yfir því að Danny Ings, stjörnuframherji liðsins vilji ekki framlengja samning sinn við það.

„Við þurfum á þessum leikmanni að halda, við viljum að hann spili fyrir okkur en það er aldrei hjálplegt að hefja tímabili þar sem þú átt eitt tímabil eftir af samningnum þínum. Það er það sem ég vil að hann viti.

Að koma fram með skilaboð um að hann hafi hafnað samningsboði okkar og vilji ekki framlengja samning sinn hjálpar engum, hvorki honum né okkur,“ sagði Hasenhuttl í samtali við BBC.

Í miðlum á Bretlandi hefur verið greint frá því að Ings hafi hafnað fjögurra ára samningstilboði Southampton, sem hefði gert hann að launahæsta leikmanninum í sögu félagsins.

Ings er sagður vilja reyna fyrir sér hjá stærra félagi eftir að hafa staðið sig feykivel hjá Southampton undanfarin tímabil, en félagið endar iðulega um miðja ensku úrvalsdeildina.

Danny Ings er helsti markaskorari Southampton.
Danny Ings er helsti markaskorari Southampton. AFP

„Ég veit ekki hver kom þessum skilaboðum í dagsljósið, þau eru allavega pottþétt ekki frá okkur komin. Við höfum engan áhuga á að kenna leikmanninum um eða komast að því að honum líði ekki vel hjá þessu félagi og hafi engan áhuga á því að standa sig eins vel og hann getur hjá okkur. Það væri synd og skömm ef það er staðan hjá honum,“ bætti Hasenhuttl við og kvaðst afar svekktur yfir stöðunni.

„Hann er leikmaður okkar í ár til viðbótar, við greiddum háa fjárhæð fyrir hann. Þegar við fengum hann hingað lögðum við mikið í að koma honum á hæsta mögulega stig hvað frammistöður varðar, getustigið sem hann er á núna.

Við stóðum við bakið á honum eftir öll þessi meiðsli sem hann hefur orðið fyrir og gáfum honum þann tíma sem hann þurfti til að jafna sig og byrja að standa sig vel að nýju.“

Hasenhuttl sagði að lokum að Ings þyrfti að hafa í huga að hann væri sjálfur að taka áhættu með því að semja ekki að nýju við Southampton.

„Það er engin ástæða til þess að selja hann en það er alltaf áhætta fyrir leikmann að hefja tímabil með eitt ár eftir af samningi. Meiðsli geta þar komið til, sem enginn vill. Eitt er alveg ljóst, ef hann framlengir ekki samning sinn við okkur er það ekki góð staða fyrir hann og ekki góð staða fyrir okkur.“

mbl.is