Óvænt nafn á óskalista Liverpool

Jarrod Bowen í leik með West Ham United gegn Manchester …
Jarrod Bowen í leik með West Ham United gegn Manchester United á síðasta tímabili. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur áhuga á enska vængmanninum Jarrod Bowen, sem leikur með West Ham United.

James Pearce, fótboltablaðamaður hjá The Athletic greinir frá þessu.

Hann segir að Liverpool muni einungis bera víurnar í hinn 24 ára gamla Bowen takist félaginu að selja þá Divock Origi og Xherdan Shaqiri.

Liverpool er opið fyrir tilboðum í þá báða og hefur ítalska félagið Lazio áhuga á Shaqiri að því er The Athletic greinir frá.

Bowen er sagður passa mjög vel í áætlanir Liverpool þegar kemur að aldri, leikstíl og fjölhæfni, en hann getur spilað allar stöður í fremstu víglínu. Litið er á hann sem leikmann sem geti bætt sig mikið og myndi fyrst um sinn vera hágæða varamaður og auka samkeppni í sóknarstöðunum þremur sem Liverpool stillir venjulega upp í.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur mikið álit á honum og mun Liverpool halda áfram að fylgjast með þróun hans fari svo að félagið bjóði ekki í hann í sumar.

Bowen gekk til liðs við West Ham frá Hull í janúar 2020 og skoraði átta mörk og lagði upp önnur fimm í 38 úrvalsdeildarleikjum á síðasta tímabili þegar liðið nældi sér í Evrópusæti með því að enda í 6. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert