Rooney meiddi eigin leikmann

Wayne Rooney verður með liði Derby í B-deildinni á komandi …
Wayne Rooney verður með liði Derby í B-deildinni á komandi keppnistímabili. AFP

Wayne Rooney á ekki sjö dagana sæla sem knattspyrnustjóri Derby County í ensku B-deildinni en undirbúningstímabilið hefur verið ein martröð.

Félagið er aðeins með níu A-liðs leikmenn á mála hjá sér, þar af tvo markmenn, jafnvel þó ekki séu nema tvær vikur í að deildarkeppnin hefjist. Rooney hefur kallað eftir því að forráðamenn félagsins fái fleiri leikmenn til liðs við sig en á meðan hefur hann tekið þátt á æfingum.

Það fór þó ekki betur en svo um helgina að Rooney tæklaði leikmann sinn, Jason Knight, með þeim afleiðingum að miðjumaðurinn meiddist illa á ökkla. Nú er komið í ljós að Knight verður frá keppni í allt að þrjá mánuði.

Der­by átti yfir höfði sér að verða dæmt niður um deild vegna fjár­mála­óreiðu. Óháður dóm­stóll sem feng­inn var til að skera úr um málið taldi hins­ veg­ar ekki for­send­ur fyr­ir því að senda fé­lagið niður um deild, en það má aftur á móti ekki kaupa leikmenn sem stendur. 

mbl.is