Smit í herbúðum United

Nokkur smit hafa greinst í herbúðum Manchester United.
Nokkur smit hafa greinst í herbúðum Manchester United. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur tilkynnt að áætlaður vináttuleikur liðsins gegn Preston North End, sem átti að fara fram á morgun, hafi verið blásinn af vegna nokkurra jákvæðra niðurstaðna úr skimun fyrir kórónuveirunni innan leikmannahópsins.

„Það er í forgangi hjá Manchester United að sjá til þess að öryggisreglum í tengslum við kórónuveiruna sé fylgt til hlítar.

Eftir venjubundna skimun á leikmannahópi aðalliðsins í dag [í gær] er grunur um að nokkrir leikmanna hafi greinst jákvæðir. Þessir einstaklingar eru nú þegar farnir í einangrun og bíða niðurstaðna frekari skimana

Sem varúðarráðstöfun vegna reglna í tengslum við kórónuveiruna höfum við tekið þá erfiðu ákvörðun að félaginu sé ekki fært að að spila vináttuleikinn gegn Preston North End á laugardag,“ sagði í yfirlýsingu á opinberri heimasíðu félagsins.

Þar segir einnig að félagið búist ekki við því að þetta muni hafa frekari áhrif á undirbúningstímabil United, þ.e. að fleiri vináttuleikjum verði frestað, þó að félagið muni vitanlega halda áfram að fylgja reglum ensku úrvalsdeildarinnar um kórónuveiruna.

mbl.is