Man. Utd valtaði yfir Leeds í fyrsta leik

Bruno Fernandes fagnar þriðja marki sínu í dag.
Bruno Fernandes fagnar þriðja marki sínu í dag. AFP

Manchester United byrjar með látum í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta en liðið vann 5:1-heimasigur á erkifjendum sínum í Leeds í 1. umferðinni í dag.

Bruno Fernandes kom heimamönnum yfir á 30. mínútu með eina marki fyrri hálfleiks er hann slapp í gegn eftir sendingu frá Paul Pogba en seinni hálfleikur átti eftir að vera fjörlegri og Fernandes og Pogba voru rétt að byrja.

Luke Ayling jafnaði fyrir Leeds á 48. mínútu með glæsilegu skoti af 25 metra færi. Boltinn fór í innanvert hliðarnetið og átti David De Gea í marki Manchester United ekki möguleika.

Heimamenn voru snöggir að komast aftur yfir því Mason Greenwood skoraði aðeins tveimur mínútum síðar eftir glæsilega sendingu frá Paul Pogba og Fernandes bætti við sínu öðru marki og þriðja marki United skömmu síðar og staðan orðin 3:1 og Pogba kominn með þrjár stoðsendingar.

Manchester United hélt áfram að raða inn mörkum því Fernandes fullkomnaði þrennuna á 60. mínútu með glæsilegu skoti er hann slapp einn í gegn eftir sendingu frá Victori Lindelöf og Brasilíumaðurinn Fred gulltryggði 5:1-stórsigur Manchester-liðsins með síðasta markinu á 68. mínútu, enn og aftur eftir sendingu frá Pogba sem lagði upp fjögur mörk í leiknum.

Man. Utd 5:1 Leeds opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert