Öruggur sigur er van Dijk sneri aftur

Mohamed Salah fagnar marki sínu á Carrow Road í kvöld.
Mohamed Salah fagnar marki sínu á Carrow Road í kvöld. AFP

Liverpool hóf tímabilið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu með 3:0-sigri á nýliðum Norwich á Carrow Road í fyrstu umferðinni í kvöld. Norwich vann B-deildina sannfærandi á síðustu leiktíð og tryggði sér sæti í deild þeirra bestu en Liverpool endaði í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.

Heimamenn voru líflegir í byrjun og vel studdir af þeim 26 þúsund áhorfendum sem mættu á Carrow Road í dag. Gæðin í leikmannahópi Liverpool sáu þó til þess að gestirnir unnu sanngjarnan sigur. Diogo Jota kom þeim í forystu á 26. mínútu með skoti af stuttu færi eftir að Mohamed Salah hafði óvart rennt boltanum til hans, Egyptinn ætlaði í raun að taka við honum en fyrsta snertingin heppnaðist ekki verr en svo að hún varð að stoðsendingu.

Varamaðurinn Roberto Firmino bætti svo við öðru marki á 65. mínútu eftir að Salah renndi knettinum fyrir hann inn í teig. Egyptinn skoraði svo sjálfur þriðja markið eftir að hafa lagt hin tvö upp. Fékk þá knöttinn við vítateigslínuna hægra megin, lagði hann fyrir sig og sneri upp í vinstra hornið.

Varnarmaðurinn öflugi Virgil van Dijk sneri aftur í byrjunarlið Liverpool og spilaði allan leikinn en þetta var hans fyrsti keppnisleikur síðan í október í fyrra er hann varð fyrir slæmum hnémeiðslum. Byrjunin var því eins góð og gat verið fyrir Liverpool sem fær Burnley í heimsókn í annarri umferðinni.

Norwich 0:3 Liverpool opna loka
90. mín. Tvær mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert