„Draumur minn síðan ég var ellefu ára“

Romelu Lukaku fagnar öðru marki sínu á Stamford Bridge í …
Romelu Lukaku fagnar öðru marki sínu á Stamford Bridge í gærkvöldi. AFP

Romelu Lukaku skoraði loks fyrir Chelsea á heimavelli liðsins, Stamford Bridge, rúmum áratug eftir að hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið. Lukaku sagði draum frá því barnæsku vera að rætast.

Lukaku gekk fyrst til liðs við Chelsea þegar hann var aðeins 18 ára gamall árið 2011 og spilaði sinn fyrsta leik í ágúst sama ár. Í 10 deildarleikjum fram til ársins 2013 auðnaðist honum hins vegar aldrei að skora, og raunar ekki heldur í fimm leikjum til viðbótar í öðrum keppnum.

Var hann svo seldur til Everton sumarið 2014 eftir að hafa verið á láni hjá West Bromwich Albion og Everton.

Eftir dvöl hjá Manchester United og svo Internazionale frá Mílanó sneri Lukaku aftur til Chelsea í sumar og skoraði í fyrsta leik sínum í endurkomunni gegn Arsenal á Emirates-velli nágrannanna frá Lundúnum.

Í gær skoraði hann hins vegar tvö mörk á Stamford Bridge, hans fyrstu mörk fyrir félagið á heimavelli þess, þegar Chelsea vann öruggan 3:0 sigur gegn Aston Villa.

„Þetta er draumur minn frá því að ég var 11 ára gamall. Ég hef unnið hörðum höndum að þessu augnabliki,“ sagði Lukaku glaður með mörkin tvö í samtali við BBC eftir sigurinn.

„Þetta var upp og niður hjá mér í byrjun ferilsins en ég hef náð að finna vissan stöðugleika undanfarin þrjú ár sem hefur komið með reynslu og mikilli vinnu. Ég held bara áfram að leggja hart að mér.

Þetta er góð byrjun en við þurfum að halda áfram leggja hart að okkur. Við vitum að deildin verður mjög samkeppnishæf á þessu tímabili. Fjöldi liða mun berjast um titilinn,“ bætti hann við, en Chelsea er í öðru sæti deildarinnar með 10 stig, jafnmörg og Man Utd í efsta sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert