Verðskuldar að vera einn sá launahæsti

Mohamed Salah hefur raðað inn mörkum fyrir Liverpool.
Mohamed Salah hefur raðað inn mörkum fyrir Liverpool. AFP

Jamie Carragher, sparkspekingur á Sky Sports, segir að Mohamed Salah, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, eigi skilið að verða á meðal launahæstu leikmanna ensku úrvalsdeildarinnar.

Salah skoraði á sunnudaginn 100. úrvalsdeildarmark sitt, þar af eru 98 fyrir Liverpool í aðeins 149 leikjum.

Hann hefur hafið fimmta tímabil sitt með liðinu af krafti þar sem hann er kominn með þrjú mörk í fyrstu fjórum leikjunum í deildinni.

Salah er 29 ára gamall og er samningsbundinn Liverpool til sumarsins 2023. Samningaviðræður um nýjan samning eru skammt á veg komnar en Carragher, sem er næst leikjahæsti leikmaður í sögu Liverpool, segir að félagið eigi einfaldlega að borga Egyptanum þær upphæðir sem hann vilji, svo góður sé hann og hafi verið.

„Hann verðskuldar að vera einn launahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar vegna þess sem hann hefur gert síðan hann kom til Liverpool,“ sagði Carragher á Sky Sports að loknum leik Everton og Burnley í gærkvöldi, þar sem farið var yfir þann leik og alla leiki helgarinnar í deildinni.

mbl.is