Guardiola hafði loks betur gegn Tuchel

Gabriel Jesus fagnar sigurmarki sínu ásamt Bernardo Silva.
Gabriel Jesus fagnar sigurmarki sínu ásamt Bernardo Silva. AFP

Manchester City vann gífurlega sterkan 1:0 útisigur gegn Chelsea í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í dag. Sigurinn var sanngjarn og er Man City nú komið upp að hlið toppliðanna í deildinni.

Leikurinn fór ansi rólega af stað en um miðjan fyrri hálfleikinn fóru gestirnir í Man City að herða tökin og auka pressuna á Chelsea í sífellu.

Markalaust var í hálfleik en snemma í þeim síðari kom loks fyrsta og eina markið.

Gestirnir tóku þá hornspyrnu stutt og Kevin De Bruyne kom boltanum á Joao Cancelo. Hann reyndi skot fyrir utan teig sem barst til Gabriel Jesus, sem náði góðri snertingu og skaut að marki þar sem boltinn fór af bæði Andreas Christensen og Jorginho og sigldi þaðan í nærhornið þar sem Édouard Mendy í marki Chelsea stóð hreyfingarlaus í hinu horninu.

Staðan orðin 1:0 og City hélt áfram að þjarma að heimamönnum en Jack Grealish og Jesus klúðruðu báðir dauðafærum með stuttu millibili eftir um klukkutíma leik.

Chelsea reyndu að finna jöfnunarmark og komst Mateo Kovacic nálægt því á 71. mínútu en Rúben Dias renndi sér glæsilega fyrir skot hans á ögurstundu.

Grealish slapp svo í gegn á 83. mínútu eftir góða stungusendingu Jesus en Mendy kom vel út á móti og varði.

Fleiri urðu mörkin ekki og frækinn og verðskuldaður útisigur Englandsmeistaranna gegn Evrópumeisturunum staðreynd.

Eftir þrjú töp í röð í öllum keppnum vann Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, loks leik gegn Chelsea undir stjórn Thomas Tuchel.

City fer með sigrinum upp að hlið Chelsea, Liverpool og Manchester United sem eru öll með 13 stig á toppi deildarinnar.

Liverpool á þó leik til góða síðar í dag þegar liðið heimsækir Brentford og getur með sigri komist eitt á toppinn.

Andreas Christensen, Phil Foden og Mateo Kovacic í baráttunni í …
Andreas Christensen, Phil Foden og Mateo Kovacic í baráttunni í leiknum. AFP
Chelsea 0:1 Man. City opna loka
90. mín. Rúben Dias (Man. City) fær gult spjald +5 Fyrir hvað sá ég ekki.
mbl.is