Vel gert, vinur!

Roger Hunt, miðherji Englands, og Vestur-Þjóðverjarnir Hans Tilkowski og Wolfgang …
Roger Hunt, miðherji Englands, og Vestur-Þjóðverjarnir Hans Tilkowski og Wolfgang Weber horfa á boltann hrökkva niður af þverslánni í úrslitaleik HM á Wembley 1966. Viðbrögð Hunts þóttu næg sönnun þess að hann hefði verið inni. AFP

Þegar miðherjinn Roger Hunt sneri aftur á Melwood, æfingasvæði félagsliðs síns Liverpool, tveimur vikum eftir að hafa orðið heimsmeistari með enska landsliðinu á Wembley 1966 tók knattspyrnustjórinn Bill Shankly á móti honum. „Vel gert, vinur,“ sagði stjórinn orðheppni, „en nú skulum við snúa okkur að því sem skiptir máli!“

Shankly var sumsé Skoti.

Hunt, sem lést í vikunni 83 ára að aldri, er markahæsti leikmaður Liverpool í deildarkeppni frá upphafi, með 244 mörk. Aðeins Ian Rush hefur skorað fleiri mörk fyrir Rauða herinn í öllum keppnum. Hann kom til liðsins frá áhugamannaliðinu Stockton Heath árið 1958, tvítugur að aldri, en lék ekki sinn fyrsta leik fyrr en rúmu ári síðar – og hélt upp á það með viðeigandi hætti, marki gegn Scunthorpe United í leik í gömlu 2. deildinni.

Í samtali við blaðið The Liverpool Echo í fyrra greindi Hunt frá því að andað hefði köldu í hans garð til að byrja með enda hafi atvinnumennirnir á Anfield ekki skilið hvaða erindi áhugamaður beint úr hernum ætti upp á dekk. Varaliðsþjálfarinn, Joe Fagan, mun þó hafa tekið honum opnum örmum, stappað í hann stálinu og kennt honum að æfa eins og atvinnumaður. „Hann var goðsögn, magnaður maður.“

Ekki bætti úr skák að skórnir sem Hunt átti að fylla voru stórir og víðir en goðsögnin Billy Liddell var farin að reskjast og rifa seglin á þessum tíma. Meiðsli hans hleyptu Hunt á endanum inn í liðið.

Varð lykilmaður hjá Shankly

Skömmu síðar bar Bill nokkurn Shankly að garði – með kústinn hátt á lofti. Hvorki fleiri né færri en 24 leikmenn enduðu úti á stétt. Aðeins hörðustu Púlarar muna hvern Shankly leysti af hólmi á Anfield. Ég heyri þá núna slá sér á lær og mæla hátt og snjallt: Phil Taylor. Drjúgir með sig. Í Liverpool Echo-viðtalinu lýsir Hunt Shankly sem stórmenni og fljótt hafi komið í ljós að hann ætlaði að umturna félaginu. „Ég vissi að hann var sérstakur og drengur góður. Hann var ekki eins mikill harðjaxl og margir halda,“ sagði Hunt og eiginkona hans, Rowan, bætti við að leikmennirnir hefðu hlaupið gegnum veggi fyrir Shankly. Spurð hvort allt sem sagt hafi verið um Shankly sé satt og rétt hristu hjónin höfuðið og svöruðu: „Kannski svona 50%“

Hunt lenti ekki í brottkastinu hjá Shankly og átti eftir að verða lykilmaður í endurreisn hans næstu árin; vann tvo Englandsmeistaratitla (1964 og 1966) og enska bikarinn einu sinni (1965). Þá varð hann markakóngur efstu deildar 1966 með 29 mörk ásamt Willie Irvine, leikmanni Burnley. Mestum hæðum náði Hunt þó fjórum árum áður, þegar hann skoraði 42 mörk í 46 leikjum í 2. deildinni.

Hann gerði sem frægt er fyrstu tvö Evrópumörk sín á Laugardalsvellinum gegn KR haustið 1964, framhjá Gísla Þorkelssyni. Hann skoraði líka í seinni leiknum í Liverpool, þá framhjá Heimi Guðjónssyni. Vel haldnir af markvörðum á þessum árum, KR-ingar.

Fyrsta markið í Match of the Day

Þetta var viðburðaríkt ár hjá Hunt en 22. ágúst skoraði hann fyrsta markið sem sýnt var í hinum langlífa og sívinsæla sjónvarpsþætti Match of the Day, eða Leik dagsins, á BBC. Það gerði hann fyrir framan The Kop í 3:2 sigri á Arsenal. Lyfti boltanum viðstöðulaust yfir bjargarlausan Jim Furnell í markinu eftir fyrirgjöf frá Ian Callaghan. „Það var mark,“ galaði Kenneth Wolstenholme sem seinna lýsti úrslitaleik HM á Wembley. Skömmu áður hafði verið brotið á Callaghan á hægri kantinum en leikurinn hélt eigi að síður áfram í drykklanga stund á eftir enda heyrði ekki nokkur maður í flautu Kevins Howleys dómara vegna hávaða á pöllunum. Eða „herra Howley“, eins og Wolstenholme kallaði hann. Menn kunnu sig í þá daga.

Ian St John lést fyrr á þessu ári.
Ian St John lést fyrr á þessu ári.


Hunt var ekki aðeins iðinn við kolann, heldur vann hann alla tíð einnig eins og þjarkur án bolta. Réttnefndur draumaleikmaður knattspyrnustjórans. Fræg er líka samvinna hans við Skotann Ian St John í framlínu Liverpool sem dugði í átta ár. Einhver ljóðræn fegurð í því að þeir skuli falla frá á sama árinu.

Rogers Hunts er betur minnst í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og einnig Jimmys Greaves, félaga hans úr enska landsliðinu, sem líka féll frá í nýliðnum mánuði. Greaves er mesti markaskorari Englandssögunnar.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert