„United þarf betri knattspyrnustjóra“

Ole Gunnar Solskjær átti fá svör á hliðarlínunni á Old …
Ole Gunnar Solskjær átti fá svör á hliðarlínunni á Old Trafford í gær. AFP

Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool og starfandi sparkspekingur hjá Sky Sports, gagnrýndi Ole Gunnar Solskjær, stjóra United, eftir niðurlægjandi tap liðsins gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford í gær.

Leiknum lauk með 5:0-sigri Liverpool en Liverpool leiddi með fjórum mörkum gegn engu í hálfleik og steig af bensíngjöfinni á Old Trafford eftir að Paul Pogba fékk að líta beint rautt spjald fyrir ljóta tæklingu á Naby Keita snemma í síðari hálfleik.

Carragher hefur verið duglegur að gagnrýna Solskjær undanfarna daga en Norðmaðurinn hefur svarað varnarmanninum fyrrverandi fullum hálsi og meðal annars sagt að það eina sem skipti máli sé að stjórn United hafi trú á sér, ekki skoðun Carraghers.

„Ole hefur gert ágætis hluti en ef United ætlar sér að yfirbuga stjóra eins og Klopp, Tuchel og Guardiola þarf það bara betri knattspyrnustjóra,“ sagði Carragher í sjónvarpsþættinum Monday Night Football á Sky Sports í gær.

„Ég veit að ég og Solskjær höfum verið að skjóta hvor á annan undanfarna viku en ég vil taka það fram að ég er ekki maður sem segir að það eigi að reka einhvern eða að einhver eigi skilið að vera rekinn.

Við tölum hins vegar linnulaust um það að Fred sé ekki nógu góður og að Scott McTominay sé ekki nógu góður. Ég ætla þess vegna bara að leyfa mér að segja að Solskjær er ekki nægilega góður fyrir United.

United þarf betri knattspyrnustjóra og Ole er ekki rétti maðurinn fyrir félagið. Það vantar einhvern þarna til að taka næsta skref og Ole er ekki Klopp, Tuchel eða Guardiola og það er orðið aðeins of augljóst,“ bætti Carragher við.

mbl.is