Vonast til að fá Wenger aftur til Arsenal

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal kveðst vonast eftir því að fá Arsene Wenger, stjóra félagsins til 22 ára, til að koma á ný til liðs við félagið.

Wenger hætti með Arsenal árið 2018 eftir að hafa stýrt liðinu frá 1996 þar sem það varð þrisvar enskur meistari og sjö sinnum bikarmeistari, og fór taplaust í gegnum tímabilið 2003-2004. Hann er orðinn 72 ára gamall og starfar nú fyrir FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið.

Arteta sagði við The Telegraph í dag að þeir hefðu hist við sýningu myndarinnar Arsene Wenger: Invincible, sem fjallar um meistaraliðið frá 2004. „Við höfum rætt saman og það var ótrúlega gott að hitta hann og ræða málin. Vonandi getum við fengið hann aftur í okkar hóp. Hann nýtur gríðarlegrar virðingar í félaginu og félagsmenn elska og dýrka það sem hann gerði fyrir félagið og fyrir hvað það stendur vegna hans," sagði Arteta, sem lék um skeið undir stjórn Wengers með Arsenal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert