Vildi ekki tjá sig um Rangnick

Michael Carrick ræðir við Cristiano Ronaldo í fyrsta leik sínum …
Michael Carrick ræðir við Cristiano Ronaldo í fyrsta leik sínum sem bráðabirgðastjóri, gegn Villarreal í Meistaradeildinni á þriðjudagskvöld. AFP

Michael Carrick, bráðabirgðastjóri Manchester United, var spurður út í yfirvofandi komu Ralfs Rangnicks, sem áætlað er að stýri liðinu út yfirstandandi tímabil, á blaðamannafundi í dag.

Enn á eftir að ganga frá lausum endum þegar kemur að ráðningu Rangnicks. Þar á meðal þarf United að greiða Lokomotiv Moskvu, þar sem hann er knattspyrnustjóri, ákveðna upphæð til þess að leysa hann undan samningi.

Carrick gætti sín að fullyrða því ekki neitt um Rangnick sjálfan og kvaðst einungis einbeita sér að stórleiknum gegn Chelsea á Stamford Bridge í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

„Hvað mig varðar er ekki margt að segja, getgátur og fréttaflutningur eru einmitt bara það. Hugur minn beinist aðeins að leiknum. Það er hægt að spila fótbolta á alls konar hátt og við erum með góðan leikmannahóp hér.

Hver sá sem kemur og tekur við og hvað svo sem verður innleitt þá er ég viss um að viðkomandi getur aðlagast vel. Það eru miklir hæfileikar innan þessa leikmannahóps og ég vænti þess að leikmennirnir hlakki til komandi verkefna,“ sagði Carrick á fundinum.

mbl.is