Ray Kennedy er látinn

Ray Kennedy varð fimm sinnum enskur meistari og þrisvar Evrópumeistari …
Ray Kennedy varð fimm sinnum enskur meistari og þrisvar Evrópumeistari með Liverpool, og einu sinni enskur meistari með Arsenal.

Ray Kennedy, fyrrverandi leikmaður Arsenal, Liverpool og enska landsliðsins í knattspyrnu, er látinn, sjötugur að aldri, eftir langvarandi veikindi.

Kennedy var sóknarmaður í liði Arsenal sem varð tvöfaldur meistari árið 1971 og vann Borgakeppni Evrópu árið áður. Liverpool keypti hann fyrir 200 þúsund pund árið 1974 og hann var þá dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins.

Hjá Liverpool gerði Bob Paisley hann að miðjumanni þar sem Kennedy lék lykilhlutverki í mikilli sigurgöngu liðsins næstu árin. Á átta árum varð Kennedy fimm sinnum enskur meistari og þrisvar Evrópumeistari með Liverpool. Þá vann hann sér sæti í enska landsliðinu og lék 17 landsleiki á árunum 1976 til 1980.

Kennedy gekk til liðs við Swansea City, nýliða í efstu deild, árið 1982 og lék þar í hálft annað tímabil en lauk síðan ferlinum á Englandi hjá Hartlepool í D-deildinni.

Í framhaldinu var hann spilandi þjálfari Pezoporikos á Kýpur en árið 1984 greindist Kennedy með Parkinson-sjúkdóminn, aðeins 33 ára að aldri. Hann fékkst þó við þjálfun fyrstu árin á eftir en hefur glímt við bæði líkamleg og andleg veikindi undanfarna þrjá áratugi.

Kennedy lék samtals 498 deildaleiki á Englandi á ferlinum, þar af 472 í efstu deild, og skoraði 109 mörk, þar af 104 í efstu deild.

mbl.is