Andlegt vandamál

Mikel Arteta gengur niðurlútur af velli í Liverpool í kvöld.
Mikel Arteta gengur niðurlútur af velli í Liverpool í kvöld. AFP

„Það er erfitt að kyngja þessu tapi,“ sagði Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, í samtali við Sky Sports eftir 1:2-tap liðsins gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni á Goddison Park í kvöld.

Martin Ödegaard kom Arsenal yfir undir lok fyrri hálfleiks en Everton skoraði tvö mörk á lokamínútunum og tryggði sér dýrmætan sigur í dramatískum leik.

„Heilt yfir þá vorum við ekki nægilega góðir til þess að fá eitthvað út úr leiknum,“ sagði Arteta.

„Við áttum nokkur góð augnablik en við hefðum átt að gera miklu betur oft á tíðum. Svona er fótboltinn stundum og hlutirnir fara ekki alveg eins og maður hefði viljað.

Við vorum með forystuna en hleyptum þeim inn í leikinn og leyfðum þeim að stjórna ferðinni. Þetta er andlegt vandamál, við erum með yfirhöndina og menn eru hræddir við að tapa henni niður.

Í stað þess að sækja annað mark þá fórum við í það að verja forskotið sem kann ekki góðri lukku að stýra,“ bætti Arteta við.

mbl.is