Gerrard líklega bestur á æfingasvæðinu

Aston Villa hefur farið mjög vel af stað undir stjórn …
Aston Villa hefur farið mjög vel af stað undir stjórn Steven Gerrards. AFP

Steven Gerrard hefur farið vel af stað sem knattspyrnustjóri Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni en liðið hefur unnið þrjá leiki af fjórum síðan hann tók við stjórnartaumunum hjá félaginu hinn 11. nóvember.

Aston Villa hefur lagt Brighton, Crystal Palace og nú síðast Leicester að velli en liðið tapaði 1:2-gegn Englandsmeisturum Manchester City 1. desember.

Gerrard, sem er 41 árs gamall, stýrði áður liði Rangers í Skotlandi þar sem hann gerði liðið að meisturum á síðustu leiktíð en þetta var fyrsti meistaratitill félagsins í tíu ár.

Miðjumaðurinn fyrrverandi lék með Liverpool í sautján ár áður en hélt til LA Galaxy þar sem hann lauk ferlinum árið 2016 en hann er af mörgum talinn besti miðjumaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

„Hann er stjóri sem leikmennirnir tengja vel við,“ sagði Mark Lawrenson, fyrrverandi leikmaður Liverpool, í hlaðvarpsþættinum Off The Ball.

„Hann er líklegast bestur á æfingasvæðinu sem er mjög gott fyrir félagið. Gæðin á æfingum verða mun meiri fyrir vikið og leikmennirnir líta klárlega upp til hans,“ bætti Lawrenson við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert