Klopp tjáði sig um samningsmál Salah

Mohamed Salah verður samningslaus sumarið 2023.
Mohamed Salah verður samningslaus sumarið 2023. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool á Englandi, ræddi samningsmál egypska sóknarmannsins Mohameds Salah á blaðamannafundi liðsins fyrir leik AC Milan og Liverpool í B-riðli Meistaradeildarinnar sem fram fer í Mílanó í dag.

Salah, sem er þrítugur, verður samningslaus sumarið 2023 en hann á nú í viðræðum við forráðamenn enska félagsins um nýjan samning.

Sóknarmaðurinn hefur verið besti leikmaður félagsins síðan hann gekk til liðs við Liverpool frá Roma sumarið 2017 en hann er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu með þrettán mörk.

„Að framlengja samning við leikmann eins og Mohamed Salah gerist ekki yfir einum tebolla,“ sagði Klopp.

„Hann hefur sjálfur tjáð sig um þessi mál og kannski ákváðu einhverjir blaðamenn að snúa út úr því sem hann sagði til þess að gera fyrirsagnirnar meira spennandi.

Ég get ekki tjáð mig of mikið um þessi mál en mér líður vel og Mo líður vel. Við viljum báðir það sama og svona hlutir taka bara tíma,“ bætti Klopp við.

mbl.is