„Ég er ekki að hengja haus“

Marcus Rashford í leik með Manchester United á dögunum.
Marcus Rashford í leik með Manchester United á dögunum. AFP

Marcus Rashford, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, segist ekki óhamingjusamur hjá félaginu þrátt fyrir erfitt gengi hjá sér og liðinu að undanförnu.

Fregnir hafa borist af því að fjöldi leikmanna United vilji burt frá félaginu og hefur Ralf Rangnick bráðabirgðastjóri staðfest að einhverjir vilji yfirgefa það. Rashford segir stöðuna þó ekki eins alvarlega og látið hefur verið í veðri vaka.

„Við höfum allir orðið fyrir vonbrigðum með frammistöðu okkar að undanförnu og það hefur valdið okkur vonbrigðum að fylgjast með fréttaflutningi nýverið þar sem skuldbinding leikmanna er dregin í efa, ekki bara í garð stjórans og þjálfaraliðsins heldur einnig félagsins,“ skrifaði Rashford á twitteraðgangi sínum.

United er í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fjórum stigum frá Meistaradeildarsæti og hefur Rashford sjálfum ekki gengið nægilega vel á tímabilinu.

„Ég ber endalausa virðingu fyrir þeim og félaginu og ég hlakka til þess að bæta mig undir handleiðslu starfsliðs Manchester United.

Ég er ekki að hengja haus, ég er ekki óhamingjusamur. Er ég ósáttur við frammistöðu mína í sumum undanförnum leikjum? Að sjálfsögðu, ég er sjálfur minn stærsti gagnrýnandi.

Þetta hefur verið erfið byrjun en ég er ákveðinn í að sanna gildi mitt. Hollusta mín og löngun til þess að vera hér ætti ekki að vera dregin í efa. Ég elska þetta félag,“ skrifaði hann einnig á twitteraðgangi sínum

mbl.is