Skorar hann mörkin sem halda Newcastle uppi?

Chris Wood fer væntanlega beint í lykilhlutverk í sóknarleik Newcastle.
Chris Wood fer væntanlega beint í lykilhlutverk í sóknarleik Newcastle. AFP

Ensku úrvalsdeildarfélögin Newcastle og Burnley staðfestu í morgun að Newcastle hefði gengið frá kaupunum á nýsjálenska framherjanum Chris Wood frá Burnley fyrir 25 milljónir punda.

Newcastle nýtti sér klásúlu í samningi Wood þar sem sagði að hann væri laus frá Burnley ef greiddar yrðu meira en 20 milljónir punda fyrir hann.

Wood hefur verið í lykilhlutverki hjá Burnley á undanförnum árum og skorað 49 mörk í 144 leikjum fyrir liðið í úrvalsdeildinni frá því hann var keyptur af Leeds árið 2017. Hann lék áður með Leicester, Ipswich, Millwall, Bristol City, Birmingham, Brighton, WBA, og Barnsley, en hann kom til Englands árið 2009. Þá var hann í röðum WBA fjögur fyrstu árin en var lánaður til sex félaga á meðan á dvölinni þar stóð.

Wood hefur samtals skorað 136 mörk í 406 leikjum í ensku deildakeppninni  og hefur skorað 27 mörk í 60 landsleikjum fyrir Nýja-Sjáland þar sem hann lék 18 ára gamall á HM 2010 í Suður-Afríku og tveimur árum síðar var hann í liði þjóðar sinnar á Ólympíuleikunum í London.

Hlutverk Wood verður að skora mörk fyrir Newcastle og reyna að koma liðinu af botni úrvalsdeildarinnar en liðið er næstneðst í deildinni. Félagið er sem kunnugt er orðið það ríkasta í heimi eftir kaup Sádi-Araba á því fyrr í vetur og Wood er annar leikmaðurinn sem Newcastle kaupir eftir að opnað  var fyrir félagaskipti um áramótin. Hinn er enski landsliðsbakvörðurinn Kieran Trippier sem var keyptur af Atlético Madrid fyrir 12 milljónir punda.

Um leið er mikið áfall fyrir Burnley, sem er á sömu slóðum og Newcastle í deildinni, að missa Wood sem hefur verið algjör lykilmaður í liðinu og mikilvægur í leikaðferð þess sem stór og sterkur framherji sem vinnur mikið af skallaboltum í vítateig andstæðinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert