Margir lykilmenn gætu misst af stórleiknum

Riyad Mahrez verður ekki með City í dag.
Riyad Mahrez verður ekki með City í dag. AFP

Manchester City og Chelsea mætast í stórleik umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í hádeginu í dag. Útlit er fyrir að lykilmenn úr báðum liðum missi af leiknum, bæði vegna Covid-smita og annarra ástæðna.

Eitthvað er um smit innan herbúða Manchester City en félagið hefur þó ekki gefið út nákvæmar upplýsingar um hvaða leikmenn eru smitaðir. Ederson, Raheem Sterling, Phil Foden, Oleksandr Zinchenko, Fernandinho, John Stones og Jack Grealish misstu allir af leik liðsins gegn Swindon í síðustu viku og er talið að a.m.k. einhverjir þeirra séu enn frá. Þá verður Riyad Mahrez ekki með heldur en hann er í Afríkukeppninni með landsliði Alsír.

Edouard Mendy, markvörður Chelsea er einnig í Afríkukeppninni og verður ekki með í leiknum í dag. Andreas Christensen er með Covid og verður ekki með. Þá eru þeir Reece James, Ben Chilwell og Trevoh Chalobah allir frá til lengri tíma vegna meiðsla. 

Tomas Tuchel stjóri Chelsea mun þá væntanlega binda vonir við að þeir Thiago Silva og N'Golo Kanté geti byrjað leikinn, en þeir voru á bekknum í síðasta leik og eru að jafna sig eftir að hafa smitast.

mbl.is