Vildi koma til Liverpool og hefja nýtt sigurskeið

James Milner, miðjumaður Liverpool, ræddi við Tómas Þór Þórðarson á Símanum Sport og fóru þeir yfir víðan völl. Tómas Þór spurði Milner af hverju hann valdi að fara til Liverpool sumarið 2015.

Liverpool var þá ekki nándar nærri jafn sterkt og það hefur verið undanfarin fjögur ár eða svo og Milner var sjálfur tvöfaldur Englandsmeistari með Manchester City.

Brendan Rodgers var þá knattspyrnustjóri en Jürgen Klopp tók við stjórnartaumunum nokkrum mánuðum síðar og er enn við stjórnvölinn.

„Brendan er auðvitað góður knattspyrnustjóri og það hafði mikla þýðingu hvað hann sagði við mig en helsta hvatningin fólst í því að gera það sem þú varst að lýsa. Liðinu hafði ekki gengið jafnvel og áður fyrr.

Það hafði mikið að segja þegar ég fór til City. Ég hefði getað farið annað en City hafði ekki unnið neitt lengi og okkur tókst að hefja nýtt skeið þar.

Það var eins hjá Liverpool, það var freistandi að koma hingað. Þetta er mjög stórt félag. Maður vissi að ef vel tækist til og við næðum að vinna Englandsmeistaratitilinn hvaða þýðingu það hefði fyrir stuðningsmennina,“ sagði Milner meðal annars við Tómas Þór.

Liverpool tókst að vinna Meistaradeild Evrópu árið 2019, fylgdi því eftir með sigrum í Meistarakeppni Evrópu og HM félagsliða og vann svo langþráðan Englandsmeistaratitil sumarið 2020.

Bút úr viðtal­inu við Milner má sjá í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan en mbl.is fær­ir ykk­ur efni úr enska bolt­an­um í sam­vinnu við Sím­ann Sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert