Fjórir stjórar efstir á blaði hjá United

Mauricio Pochettino er á óskalista forráðamanna Manchester United.
Mauricio Pochettino er á óskalista forráðamanna Manchester United. AFP

Fjórir knattspyrnustjórar eru efstir á blaði hjá forráðamönnum enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United. Það er The Athletic sem greinir frá þessu.

Stjórarnir sem um ræðir eru þeir Mauricio Pochettino, stjóri París SG, Erik ten Hag, stjóri Ajax, Luis Enrique, landsliðsþjálfari Spánar, og Julen Lopetegui, stjóri Sevilla.

Ralf Rangnick var ráðinn tímabundinn stjóri liðsins í nóvember á síðasta ári eftir að Ole Gunnar Solskjær var látinn taka pokann sinn.

Rangnick mun stýra liðinu út þetta tímabil og taka svo við ráðgjafahlutverki innan félagsins næsta sumar.

Pochettino hefur verið sterklega orðaður við stjórastöðuna hjá félaginu undanfarna mánuði en forráðamenn París SG voru ekki tilbúnir að sleppa honum á miðju tímabili.

Ten Hag hefur gert frábæra hluti með Ajax frá árinu 2017 og Luis Enrique vann allt sem hægt var að vinna hjá Barcelona á sínum tíma.

mbl.is