Ráku sjötugan stjóra og ráða 74 ára í staðinn

Roy Hodgson tekur væntanlega við Watford.
Roy Hodgson tekur væntanlega við Watford. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Watford rak ekki hinn sjötuga ítalska knattspyrnustjóra Claudio Ranieri til þess að fá yngri mann í staðinn.

Sky Sports segir að hinn 74 ára gamli Roy Hodgson muni taka við starfinu strax á morgun en flestir héldu að hann væri sestur í helgan stein eftir að hann hætti störfum hjá Crystal Palace síðasta vor.

Hodgson er einn af reyndustu knattspyrnuþjálfurum heims en ferill hans spannar 45 ár og hann hefur m.a. stýrt Inter Mílanó, Blackburn, Fulham, Liverpool, WBA og landsliðum Englands, Finnlands, Sviss og Sameinuðu furstadæmanna.

Hann var einmitt þjálfari enska landsliðsins þegar það tapaði 2:1 fyrir Íslandi í sextán liða úrslitum Evrópukeppninnar í Nice árið 2016 og sagði af sér eftir þann leik.

mbl.is